Þorgils gjallandi / Jón Stefánsson
Þorgils gjallandi eða Jón Stefánsson eins og hann hét réttu nafni, kvaddi sér fyrst hljóðs sem rithöfundur árið 1892 með bók sinni Ofan úr sveitum en hún innihélt þrjár stuttar sögur og eina lengri sögu, Gamalt og nýtt. Var hann þá orðinn rúmlega fertugur að aldri. Þrátt fyrir að Þorgils væri ekki að skrifa inn í langa og ríka smásagnahefð hér á landi var öllum ljóst við lestur bókarinnar að hér var enginn venjulegur rithöfundur á ferð og ekki maður sem batt bagga sína sömu hnútum og aðrir á ritvellinum. Sögur hans hneyksluðu og kölluðu fram sterk viðbrögð, enda réðst hann í þeim gegn ríkjandi viðhorfum og skinhelgi hvaða varðaði sumar grundvallarstofnanir samfélagsins, s. s. hjónaband og kirkju. Þá var stíll hans mjög beinskeyttur og ólíkur stíl annarra og voru margir ósáttir með hann.
Þorgils fæddist á Skútustöðum við Mývatn 2. Júní 1851 og ólst upp þar í sveit við öll hefðbundin sveitastörf eins og aðrir ungir menn. Þegar hann var níu ára gamall dó móðir hans og hefur það eflaust verið honum þungbært. Í þá daga var lífsbaráttan hörð til sveita og börn þurftu á öllu sínu fólki til að fóta sig inn í framtíðina. Átta árum síðar missti hann svo föður sinn er hann drukknaði í Mývatni.
Í kjölfarið tók við vinnumennska þar í sveit í nokkur ár. Reyndar var hann kaupamaður í eitt ár í Húnavatnssýslu, en það mun hafa verið í eina skiptið sem hann hélt burt úr Þingeyjarsýslum á ævi sinni. Þorgils giftist árið 1877 Jakobínu Pétursdóttur og þremur árum síðar hófu þau búskap á bænum Litlu-Strönd. Bjó Þorgils þar til dauðadags árið 1915. Þorgils hafði alla tíð mikinn áhuga á samfélagsmálum þó svo að skoðanir hans hafi ekki alltaf fengið mikinn hljómgrunn meðal samferðafólks. Hann varð þó hreppstjóri í sinni sveit árið 1890 svo sveitungar hans virðast hafa treyst dómgreind hans.
Þorgils hóf seint að skrifa og það er fyrst árið 1890 að það birtist eftir hann í sveitablaði stuttur þáttur um þar sem hann veitist að trúarlegri skinhelgi manna. Tveimur árum síðar kom svo út eftir hann bók með fjórum sögum sem hann kallaði Ofan úr sveitum. Sagan Gamalt og nýtt var þar lengst og mætti kalla nóvelettu. Vakti sú saga gríðarleg viðbrögð margra, enda réðst höfundur þar gegn mörgum gildum samfélagsins. Það var heldur ekki eins og þetta væru skoðanir manns sem hafði alið allan sinn aldur í sveit á Norðurlandi og varla stigið fæti sínum út fyrir þau landamæri. Á þessum árum voru Íslendingar í auknum mæli farnir að verða sér úti um bækur og blöð utan úr heimi og fylgdust því vel með helstu straumum og stefnum sem þar voru efst á baugi. Stofnuð voru lestrar- og menningarfélög sem sáu um að panta bækurnar og urðu smátt og smátt vísar að litlum sveitabókasöfnum.
Þingeyingar þóttu einstaklega duglegir við þetta og Þorgils notið góðs af því. Í sögunni Gamalt og nýtt kemur þetta beinlínis fram en aðalpersónurnar finna samhljóm og réttlætingu eigin tilfinninga í bókum erlendra höfunda. Á næstu árum skrifaði Þorgils margar smásögur sem birtust víða í blöðum og tímaritum, einkum margar dýrasögur sem fólk kunni ágætlega að meta. En tíu árum eftir útgáfu bókarinnar Ofan úr sveitum, gaf hann út skáldsöguna Upp við fossa. Skemmst frá að segja þótti sú saga enn hneykslanlegri en fyrri sögur. Í henni má merkja áhrif frá norrænum raunsæisrithöfundum og natúralistum og Þorgils ræðst enn sem fyrr af offorsi gegn lífslyginni í samfélaginu og ríkjandi gildum. Þá er hann berorðari en áður og gerir sér allt far um að hneyksla, bæði með hispurslausum lýsingum og skoðunum. Viðtökurnar voru eins og við mátti búast, og þeir voru fáir sem reyndu eitthvað að verja höfundinn. Það segir þó sitt að sagan lifir enn ágætu lífi nú rúmlega hundrað árum frá því hún kom fyrst út og hefur lifað margar sögur er hlutu betri dóma þá. Álitamálin og afstaðan sem sagan fól í sér á sínum tíma lyfta engum brúnum í dag og helst að menn hafi gaman af að rýna í það forpokaða samfélag er sagan var skrifuð inn í. Þrátt fyrir viðtökurnar á Upp við fossa hélt Þorgils áfram að skrifa, en sögur hans eftir það voru mun mildari og ádeiluhitinn virtist hafa kulnað lítið eitt. Kannski varð Þorgils bara sáttari við eigið samfélag með árunum.
Þrátt fyrir að sögur Þorgils færu fyrir brjóstið á mörgum voru flestar þeirra hefðbundnar í byggingu, þó svo höfundurinn léki sér stundum með stíl og málfar. Þá voru þær oftast listrænar og vandaðar, en stundum tóku skoðanir höfundar öll völd og ákefð ádeilunnar rýrir bókmenntalegt og skemmtanagildi sögunnar. Honum tekst þó oftar vel upp og þegar best lætur eru sögurnar stórgóðar og skemmtileg lesning.